Magaspeglun

Almennar upplýsingar:

Magaspeglun er algeng rannsókn framkvæmd á sérhæfðum deildum bæði innan og utan
spítala. Skoðað er vélinda, magi og skeifugörn (sá hluti sem er skoðaður kallast „efri hluti
meltingavegar“).

Algengar ástæður fyrir rannsókn eru eftirtaldar:

Einkenni frá maga t.d. verkir, uppþemba, ógleði, uppköst, brjóstsviði, blóðleysi, grunur um
magasár eða vélindabólgur.

Fasta:

Ef fyrirhuguð er magaspeglun fyrir hádegi er nauðsynlegt að fasta frá miðnætti deginum
áður. Ef fyrirhuguð er magaspeglun eftir hádegi er lágmarks fasta á fasta fæðu 6
klukkustundir og fljótandi fæðu 2 klukkustundir.
Það sem læknir þinn þarf að vita:

  •  Hvort þú er með hjarta- eða æðasjúkdóm.
  • Ofnæmi – hvers konar.
  • Þungun.
  • Hvort þú tekur blóðþynnandi- eða blóðflöguhemjandi lyf eins og Kovar, Xarelto,
    Pradaxa, Eliquis, Persantin, Clopidogrel, Grepid, Plavix, Ticlid, Efient eða Brilique. Að
    jafnaði skal hætta notkun þessarra lyfja einni viku fyrir rannsókn vegna
    blæðingarhættu (nema læknirinn þinn gefi fyrirmæli um skemmri tíma).

Nauðsynlegt er að hafa samráð við lækni áður en tekin er ákvörðun um að stöðva
tímabundið notkun slíkra lyfja.Hvort þú ert að taka sýruhamlandi lyf t.d. prótónpumpuhemla.
Í samráði við lækni er oft ráðlagt að hætta töku þessara lyfja 2 vikum fyrir rannsókn.

Mikilvægt – ATH – Aldrei skal hætta notkun lyfja án samráðs við lækni fyrst.

  • Áður en rannsóknin hefst gefur hjúkrunarfræðingur eða læknir þér stutta útskýringu
    á því hvernig rannsóknin fer fram. Hafir þú spurningar skaltu endilega bera þær fram
    þá.
  • Rannsóknina framkvæmir læknir sem er sérstaklega til þess þjálfaður.
  • Rannsóknin tekur um 5-10 mínútur.
  • Boðið er upp á staðdeyfingarúða í kokið og oft eru gefin róandi lyf í æð sem hjálpa
    þér að slaka á. Ekki er þó alltaf þörf á róandi lyfjum.
  • Þú liggur á vinstri hlið og reynir að slaka vel á.
  • Skoðunin er framkvæmd með sveigjanlegri slöngu sem er þrædd í gegnum munn og
    niður í maga. Litlu magni af lofti er dælt í magann til að gefa yfirsýn.

Vefjasýni eru tekin ef þörf krefur og er það sársaukalaust. Sýni eru send til
vefjagreiningar á rannsóknarstofu.

Er þetta sárt?

Magaspeglun er sársaukalaus en getur verið svolítið óþægileg. Í byrjun rannsóknar er
mikilvægast er að reyna að kyngja um leið og læknir eða hjúkrunarfræðingur biður þig um og
hugsa eftir það um að anda djúpt og rólega. Það auðveldar slökun og þú verður fljótt vör/var
við að ekkert er í vegi fyrir eðlilegri öndun. Í einstaka tilfellum getur rannsóknin valdið
vægum vindverkjum vegna lofts sem dælt er inn í magann til að auðvelda yfirsýn. Þetta líður
fljótt hjá eftir speglunina.
Að speglun lokinni:

  • Hafirðu fengið róandi lyf ertu flutt(ur) í annað herbergi á meðan þú vaknar og jafnar
    þig eftir rannsóknina. Þar dvelur þú að meðaltali í 30-60 mínútur (skemur eða lengur
    eftir aðstæðum).
  • Upplýsingar um niðurstöður færð þú hjá lækninum þegar þú ert orðin(n) vel vakandi
    og hefur jafnað þig að lokinni speglun.
  • Hafi vefjasýni verið tekið þarf að bíða í nokkra daga eftir vefjagreiningunni.
  • Þú getur fundið fyrir vægum verkjum í kvið (vindverkjum) sem venjulega líða fljótt
    hjá.
  •  Þú mátt borða og drekka að vild u.þ.b. 1 klukkustund eftir speglunina hafi kok verið
    staðdeyft. Ef ekki er notuð staðdeyfing eða róandi lyf máttu borða strax að lokinni
    speglun.
  • Róandi lyf valda því að þú ert ófær um að aka bíl eða stýra tækjabúnaði þar til daginn
    eftir. Reiknaðu með að þurfa fylgdarmann heim eftir útskrift.

Er hætta á fylgikvillum?

Magaspeglun er örugg rannsókn. Eins og við öll læknisfræðileg inngrip geta hins vegar komið
upp ófyrirsjáanlegir fylgikvillar. Blæðingar geta komið einkum ef teknir eru separ. Slíkar
blæðingar stöðvast gjarnan að sjálfu sér en geta í undantekningartilfellum krafist blóðgjafar
eða skurðaðgerðar. Götun á slímhúð er enn sjaldgæfari fylgikvilli en getur einnig krafist
skurðaðgerðar. Þá geta róandi lyf valdið aukaverkunum en slíkt er sjaldgæft.